Fyrirlestrar og vinnustofur
Vellíðan í vinnu
Vellíðan í vinnu er gagnvirkur, 70 mínútna fyrirlestur sem byggir á fræðum Jákvæðrar sálfræði. Markmiðið er að vekja fólk til umhugsunar um hvað við getum gert til að skapa eigin vellíðan í vinnu, bæði sem einstaklingar og hópur.
Framsetningin er blanda fræðslu og sjálfsvinnu í anda “learn by doing” kennslufræða. Með því aukum við líkurnar á að vinnan skili sér áfram í daglegt starf sem svo stuðlar að aukinni vellíðan.
Fyrirlesturinn hefur fengið góða dóma hjá þátttakendum eins og sjá má á eftirfarandi ummælum.
„Sylvía kom til okkar á starfsdag með fyrirlestur um Vellíðan í vinnu og má segja að starfsfólkið var himinlifandi með fyrirlesturinn. Frábært að fá skilning og tól til að finna hvað maður getur sjálfur gert til að manni líður vel, ekki að bíða eftir því að aðrir geri mann glaðan. Mæli eindregið með þessum fyrirlestri fyrir öll fyrirtæki og eiginlega bara alla einstaklinga.”
Rakel Ólafsdóttir
Aðstoðarleikskólastjóri Sunnuási
„Sylvía kom á skipulagsdegi til okkar í Nóaborg með fyrirlesturinn sinn „Vellíðan í vinnu“. Það er skemmst frá því að segja að gríðarleg ánægja var með fyrirlesturinn hjá öllum starfsmönnum leikskólans. Það er mér bæði ljúft og skylt að mæla með því að leikskólar fái Sylvíu í heimsókn með þennan frábæra fyrirlestur sem á erindi til okkar allra í leikskólanum.“
Anna Margrét Ólafsdóttir
Leikskólastjóri í Nóaborg
Bjargráð í breytingum
40 mínútna fyrirlestur fyrir stofnanir, fyrirtæki og félög í breytingum.
Í þessum fyrirlestri fjöllum við um breytingar, líðan í breytingum, þá þætti sem stuðla að farsælli innleiðingu breytinga og síðast en ekki síst, bjargráð í breytingum. Bjargráðin byggja öll á faglegum og gagnreyndum aðferðum breytingastjórnunar, jákvæðrar sálfræði, markþjálfunar og umhverfissálfræði.
Á endanum snúast breytingar um fólk. Ef breytingin nær ekki til starfsmanna og starfshátta er hætta á að breytingin nái aldrei fótfestu og við dettum aftur í gömlu aðferðirnar.
Óvissan sem fylgir breytingum getur valdið streitu, dregið úr trausti til vinnustaðarins, aukið líkur á uppsögnum og ef ekkert er að gert getur ástandið mögulega leitt til kulnunar.
Það er því mikilvægt að huga vel að þeim þáttum sem snúa að starfsfólkinu. Að hlúa að líðan og veita þeim bjargráð til að takast á við krefjandi tíma á farsælan máta.
Inngrip jákvæðrar sálfræði
Stuttur, hnitmiðaður og hagnýtur fyrirlestur fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök.
Við fjöllum um inngrip jákvæðrar sálfræði sem byggja á gagnreyndum aðferðum og eru til þess fallin að auka vellíðan og hamingju ásamt þvi´að geta dregið úr einkennum þunglyndis og kvíða.
Hér förum við yfir upphaf jákvæðu sálfræðinnar og helstu inngrip hennar með áherslu á styrkleikagreiningar og þakklætisæfingar.
Vinnustofur
Hægt er að fá sérsniðna vinnustofu fyrir fyrirtæki og stofnanir sem standa í breytingum. Áherslan er lögð á virka þátttöku starfsfólks og byggir á fyrirlestrunum Bjargráð í breytingum og inngrip jákvæðrar sálfræði