top of page
Search
  • Writer's picturestyrkleikar&stefna

Markþjálfun – Hvað er það?


Ég hef svo oft fengið spurninguna, hvað er markþjálfun? Og hver er munurinn á markþjálfa og markþjálfa?


Markþjálfi er ekki lögverndað starfsheiti á Íslandi og því geta allir sem það vilja tekið sér þann titil. Til að mega kalla sig viðurkenndan markþjálfa þarf að ljúka ICF viðurkenndu markþjálfunarnámi ásamt því að hafa ákveðinn fjölda markþjálfunartíma og mentormarkþjálfun að baki. Viðurkenndur markþjálfi starfar skv. siðareglum alþjóðlegra samtaka markþjálfa, ICF, sem ætlað er að tryggja gæðin í faginu.


Næsta stig þar fyrir ofan er vottaður markþjálfi. ACC vottun felur í sér að viðkomandi markþjálfi hefur amk 100 markþjálfunartíma að baki ásamt því að hafa lokið ströngu vottunarferli hjá ICF. Næstu stig vottunar eru svo PCC og MCC. Vottanir gefa til kynna hvaða þjálfun og reynslu viðkomandi hefur að baki í markþjálfun og eru ákveðinn gæðastimpill.


Markþjálfun er árangursmiðað og kerfisbundið samtal og samvinna milli markþjálfa og markþega. Markþegi leggur til umræðuefnið og svo er það markþjálfans að halda samtalinu á þeirri braut. Markþjálfinn gefur ekki ráð heldur spyr krefjandi spurninga sem hvetja markþega til að rýna dýpra í eigin þarfir, langanir og markmið. Því er mikilvægt að gera skýran samning í upphafi samtals um hvað það er sem markþegi vill fá út úr samtölunum. Umræðuefnin geta verið af ýmsum toga en mikilvægt er að benda á að við vinnum ekki með sjúkdóma eða klínískan vanda. Í þeim tilvikum ber markþjálfa að vísa markþega á viðeigandi fagaðila.


Samvinnan þarf að byggja á trausti og því að báðir aðilar skuldbindi sig til að leggja sitt af mörkum. Heiðarleiki, virðing, sálrænt öryggi og hrein samskipti eru grunnstoðir trausts. Það er ekki sjálfgefið að slíkt traust nái að myndast. Þá er mikilvægt fyrir báða aðila að koma hreint fram og mögulega ákveða að enda samskiptin. Það hefur ekkert með markþegann eða markþjálfann að gera heldur það hvernig þessir aðilar ná að tengjast. Rannsóknir hafa sýnt að þessi tenging og traust er grundvöllur þess að árangur náist, hvort sem það er í markþjálfun, hjá sálfræðingi eða öðrum meðferðaraðilum. Það er því ekki skrítið að nærvera og viðvera séu hluti af hæfnisþáttum ICF sem markþjálfar þurfa að standast til að hljóta viðurkenningu og/eða vottun.


Þegar samningurinn er orðinn skýr og traust hefur myndast er virkilega hægt að fara að kafa í efnið. Við vinnum ekki með fortíðina í markþjálfun en stundum getur verið gagnlegt að kíkja þangað stuttlega til að skilja hvar og hvers vegna við erum þar sem við erum í dag. Áherslan er þó alltaf á núverandi stöðu og hvert þú vilt fara. Við viljum ná fram vitundarsköpun, mála upp framtíðarsýnina og finna leiðirnar sem henta hverju sinni. Það gerum við með samtölum og ýmsum flottum verkfærum sem markþjálfunin hefur upp á að bjóða. Önnur verkfæri sem markþjálfi gæti boðið fara svo eftir reynslu, menntun og áherslum markþjálfans og að sjálfsögðu þörfum og óskum markþega. Ég hef mikið nýtt mér verkfæri jákvæðrar sálfræði og breytingastjórnunar sem fléttast einstaklega vel með aðferðum markþjálfunar og hafa skilað góðum árangri.


Það hvernig markþegi nýtir tímann á milli samtala til að vinna í sínum málum skiptir líka gríðarlega miklu máli. Það er til lítils að tala um hlutina og fá verkfærin, það þarf að nota þau og innleiða í daglegt líf. Það er hluti af áðurnefndri skuldbindingu, hversu mikið ert þú tilbúin/n að leggja á þig til að ná settu marki.


Það er ekki af ástæðulausu sem markþjálfun fer sífellt vaxandi. Hún einfaldlega skilar árangri hvort sem það er í einkalífi eða starfi. Hún teygir anga sína inn í hin ýmsu fög og starfsstéttir. Markþjálfun er nýtt í forvarnarstarfi og getur dregið úr líkum á streitu, kulnun og öðrum alvarlegum einkennum álags. Markþjálfun er einnig frábær aðferð fyrir uppbyggingu einstaklinga sem eru að koma aftur inn á vinnumarkaðinn eftir veikindi, m.a. hjá Virk. Og læknavísindin eru farin að nota markþjálfun í auknum mæli. Sumir læknar eru farnir að vísa sínum viðskiptavinum á markþjálfa þegar það á við og svo er markþjálfun kennd við læknadeild Harvard háskóla svo eitthvað sé nefnt. Megininntakið er að læknir og markþegi vinni í sameiningu að skýrri framtíðarsýn og markmiðum varðandi bætta heilsu. Markþegi upplifir að á hann sé hlustað, hann nær að eigna sér markmiðin sem þýðir yfirleitt aukin skuldbinding, minna viðnám og viðkomandi er líklegri til að ná árangri. Hér má lesa meira um það https://www.health.harvard.edu/blog/health-coaching-is-effective-should-you-try-it-2020040819444


Ég hvet þig til að skoða kosti markþjálfunar og hvað hún getur gefið þér í lífi og starfi. Mögulegur ávinningur er t.d. vöxtur í starfi og einkalífi, skýrari framtíðarsýn, raunhæf markmið og aðgerðarplan, aukin sjálfsþekking, þekking á eigin styrkleikum og gildum, sterkari leiðtogafærni, bætt líðan og betri samskiptafærni.


Sylvía Guðmundsdóttir

ICF viðurkenndur Mark- og teymisþjálfi

Styrkleikar og stefna

Recent Posts

See All

Hugleiðing um hamingju

Pistill sem ég skrifaði og birtist fyrst á Salina.is Sem markþjálfi fæ ég stundum til mín fólk sem upplifir sig fast í ákveðnum aðstæðum....

Jákvæð sálfræði og inngrip

Hvað er jákvæð sálfræði? Um aldarmótin 2000 jókst áhugi á að rannsaka nánar þætti sem skapa vellíðan og jákvæðan vöxt (blómstrun) hjá...

Comentários

Não foi possível carregar comentários
Parece que houve um problema técnico. Tente reconectar ou atualizar a página.
bottom of page