top of page
Search
Writer's picturestyrkleikar&stefna

Jákvætt hugarfar getur dimmu í dagsljós breytt


Fyrir 4 dögum síðan fékk ég jákvæðar niðurstöður úr Covid prófi. Mér hefur alltaf fundist sérstakt að segja að niðurstöður í rannsóknum séu jákvæðar þegar afleiðingarnar eru það síður en svo. Auðvitað er merkingin önnur og alls ekki verið að meina að það sé frábært að ég sé komin með Covid.


Áður en lengra er haldið vil ég árétta að ég geri ekki lítið úr erfiðleikum og vanlíðan sem fylgir veikindum, einangrun, smithræðslu og smitskömm. Við erum misvel undir það búin að takast á við ástandið, með mismunandi undirliggjandi líkamlega, andlega og félagslega þætti. Allar tilfinningar sem upp vakna eiga rétt á sér og eru eðlilegar við núverandi kringumstæður. Og ef þær tilfinningar eru þér ofviða þá hvet ég þig til að leita þér viðeigandi aðstoðar. En það er von mín að þessi skrif geti hjálpað og mögulega létt einhverjum lífið.


Aftur að jákvæðum niðurstöðum. Er mögulega eitthvað jákvætt við að smitast og fara í einangrun? Ég ákvað að skrifa niður hvað gæti mögulega verið jákvætt við það og viti menn, listinn varð mun lengri en ég hélt.


Til að byrja með þá er ég laus við óvissuna og streituna sem henni fylgir. Ég starfa með börnum þar sem smitvarnir eru í lágmarki, þar sem nálægð og snerting eru óumflýjanlegir þættir í starfinu. Hræðslan við að veikjast er mun minni en hræðslan við að smita börnin og samstarfsfólkið. Að valda lokun leikskólans og trufla heimilislíf í tugatali. Ég veit það hljómar skringilega en það var ákveðinn léttir að fá jákvæða greiningu, að ljúka þessu af og koma vonandi sterkari og öruggari til baka. Og ég veit innst inni að ég hef sinnt smitvörnum eftir bestu getu og ber ekki ábyrgð á smitum til annarra.


Annað jákvætt í tengslum við vinnuna er að ég sakna þess að mæta ekki. Sakna barnanna og vinnufélaga. Það er ágætt að stoppa stundum og gera sér grein fyrir því að þetta er meira en bara 8-16 vinna. Að vinnan mín er gefandi og að mitt framlag skiptir máli.


Söknuð má sjá sem eina hlið ástar og kærleika. Það er forvitnilegt að skoða hvaða fólks þú saknar mest í svona aðstæðum. Hvaða fólk er framarlega á lista yfir þá sem þig langar að hitta strax að einangrun lokinni. Það er hægt að staldra við og spyrja sig hvers vegna? Hvað einkennir þetta fólk og samskipti við þau? Í mínu tilviki er það jafnvægið sem ég upplifi með þeim, jafnvægi til lengri tíma litið í að gefa og þiggja. Þessa dagana er ég kannski meira í að þiggja aðstoð en get ljáð eyra á móti þar sem ég hef meiri tíma en venjulega.


Tækninni fleygir líka áfram hjá mér. Já, ég veit að ég er ekki brautryðjandi þegar kemur að tækni en undanfarið hef ég nýtt mér hana meira. Ég keypti matvörur í fyrsta sinn á netinu fyrir tveimur dögum og fékk sent heim. Það var ótrúlega auðvelt og í fyrsta sinn í langan tíma fannst mér gaman að velja í körfuna. Ég er viss um að þessi aðferð er komin til að vera enda finnst mér fátt leiðinlegra en að fara í matvöruverslun.


Annað tæknitengt er að ég fór loks að nýta mér hljóðbækur. Ég hlusta helst á fræðiefni tengt styrkleikum, jákvæðri sálfræði, svefni (mæli með Why we sleep) og nú síðast sjálfsdáleiðslu sem mér finnst afar áhugaverð. Forvitni er ofarlega á styrkleikalistanum mínum sem ýtir undir að ég kynni mér nýtt efni. Fróðleiksfýsn vekur þörf fyrir að kafa enn dýpra og vekur upp einn af mínum kjarnastyrkleikum, sköpunargáfuna sem veitir mér ómælda gleði.


Hvað líkamlegu heilsuna varðar gæti brugðið til beggja vona enda er sjálfsstjórnin varðandi mat eitthvað sem ég gæti unnið betur í. En veikindin hafa þó orðið til þess að ég tek nú vítamínin mín á hverju kvöldi og hlýði föður mínum í að taka lýsi. Ef lungun leyfa er ég með ketilbjöllur og teygjur til að gera æfingar. Svo á ég fullan ísskáp af ávöxtum og grænmeti (búin að borða allt nammið…)


Lífið hefur margoft sýnt mér mikilvægi þess að finnast ég hafa stjórn á eigin aðstæðum. Það getur dregið úr kvíða og streitu og hefur áhrif á hvernig við vinnum úr hlutunum. Og við getum stjórnað hugarfarinu. Já það er erfitt, já við erum í krefjandi aðstæðum en það eru hlutir sem við getum gert til að líða betur. Einblínum á það jákvæða, sjáum lærdóminn í erfiðleikunum, sýnum þakklæti, hugum að sjálfum okkur og öðrum og tökum tíma til að vaxa og dafna. Ég persónulega ætla að slaka á í kvöld, fá mér melónu og vínber fín og hlusta á skemmtilega hljóðbók. En fyrst ætla ég að haka í dagatalið og leyfa mér að hlakka til að knúsa fólkið mitt eftir nokkra daga.



73 views0 comments

Recent Posts

See All

Hugleiðing um hamingju

Pistill sem ég skrifaði og birtist fyrst á Salina.is Sem markþjálfi fæ ég stundum til mín fólk sem upplifir sig fast í ákveðnum aðstæðum....

Jákvæð sálfræði og inngrip

Hvað er jákvæð sálfræði? Um aldarmótin 2000 jókst áhugi á að rannsaka nánar þætti sem skapa vellíðan og jákvæðan vöxt (blómstrun) hjá...

Markþjálfun – Hvað er það?

Ég hef svo oft fengið spurninguna, hvað er markþjálfun? Og hver er munurinn á markþjálfa og markþjálfa? Markþjálfi er ekki lögverndað...

Comments


bottom of page