top of page
Search
  • Writer's picturestyrkleikar&stefna

Hugleiðing um hamingju

Pistill sem ég skrifaði og birtist fyrst á Salina.is


Sem markþjálfi fæ ég stundum til mín fólk sem upplifir sig fast í ákveðnum aðstæðum. Það sér ekki leiðina fram á við eða efast um eigin getu til að stíga næstu skref. Stundum er tilfinning sú að framtíðin sé ekki í þeirra höndum heldur mótist hún nær einungis af kröfum og þörfum annarra. Þessi tilfinning getur valdið uppgjöf og aukið streitu og vanlíðan.

Markþjálfun snýst m.a. um að valdefla markþega í að taka ábyrgð og móta eigið líf. Í markþjálfun vinnum við saman að skýrari framtíðarsýn og hvernig markþegi getur notað eigin styrkleika til að ná árangri. Rannsóknir hafa sýnt að þekking á eigin styrkleikum er til þess fallin að auka hamingju með bjartsýni og von um framtíðina, að finna tilgang í lífinu og hafa jákvæð áhrif á sjálfsmyndina.


Verkfæri jákvæðrar sálfræði

Markþjálfun og verkfæri jákvæðrar sálfræði fara vel saman. Verkfærum jákvæðrar sálfræði er ætlað að kalla fram jákvæða breytingu hjá fólki. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á mælanlegan árangur verkfæranna á vellíðan og lífsánægju. Þó svo vellíðan sé kannski tímabundin þá getur hún til lengri tíma litið aukið jákvæða líðan, andlegt og líkamlegt úthald, víðsýni og jákvæða hegðun.

Verkfærin eru fjölbreytt og aðgengileg, þurfa ekki kosta neitt og allir ættu að finna eitthvað sem hentar þeirra lífstíl. Örfá dæmi um verkfæri sem auðvelt er að grípa til eru þakklætisæfingar, styrkleikagreining og hreyfing.


Þakklætisæfingar

Þrír góðir hlutir

Við höfum flest upplifað að leggjast á koddann að kvöldi til og hugsanirnar leita í eitthvað neikvætt. Eitthvað sem fór illa hjá okkur yfir daginn eða við kvíðum verkefnum sem bíða okkar. Það er okkur eðlislægt og tengt þörfinni fyrir að komast af og forðast hættur. En við getum þjálfað hugann í að sjá líka þetta jákvæða og þar með aukið hamingju okkar og vellíðan.

Æfingin felur í sér að enda daginn á að skrifa niður þrjá góða hluti sem veittu þér ánægju og vöktu hjá þér þakklæti yfir daginn. Oft er þessa tilfinningu að finna í litlu hlutunum. Næði til að drekka kaffið, brosið sem þú fékkst frá vinnufélaga eða góðri stund með vinum. Skrifaðu einnig hvaða þátt þú áttir í þessu eða hvað það var sem var svo ánægjulegt við þessa stund.

Ef við gerum þetta á hverju kvöldi í eina viku geta áhrifin varað í allt að sex mánuði. Svo má að sjálfsögðu halda þessu áfram eftir vikuna og viðhalda þannig áhrifum á vellíðan og hamingju.


Þakklætisbréf

Þakklætisbréf snýst um að skrifa einhverjum bréf með þökkum fyrir góðvild eða aðstoð sem viðkomandi hefur veitt þér en kannski aldrei fengið þakkir fyrir. Ef þú getur og treystir þér til að lesa bréfið fyrir viðkomandi er það frábært en það má líka senda það í pósti. Ekki einungis hefur þetta jákvæð áhrif á þína líðan heldur einnig og ekki síður fyrir þann sem fær bréfið.


Styrkleikar

Hægt er að greina styrkleika á margan hátt. Ein aðferð er að nýta sér styrkleikapróf VIA sem greinir 24 persónustyrkleika. Prófið er hannað af klínískum sálfræðingum og upphafsmönnum jákvæðrar sálfræði. Prófið er frítt og hægt að taka á íslensku. Þú færð niðurstöðurnar sendar í tölvupósti en þær birtast sem listi þar sem styrkleikarnir þínir raðast eftir því hversu ríkjandi þeir eru hjá þér. Hér getur þú fundið prófið https://www.viacharacter.org/

Til að hamingjuáhrifin vari er þó nauðsynlegt að vinna áfram með þessa þekkingu. Tilgangurinn er að fá dýpri skilning á styrkleikunum þínum og hvar og hvenær þú getur nýtt þér þá. Þetta getur þú gert á eigin vegum eða t.d. með markþjálfa.


Hreyfing

Heilbrigð sál í hraustum líkama er ekki ný hugsun. Hreyfingu má nýta í forvarnarskyni við andlegum og líkamlegum veikindum, sem hluti af meðferð og til að auka vellíðan og jákvæðar tilfinningar. Öll hreyfing er af hinu góða en til að auka líkurnar á að við ræktum hana er gott að finna hreyfingu sem hentar þér. Eitthvað sem vekur þér gleði og ánægju, er aðgengilegt og passar þinni dagskrá. Að fara í göngutúr kostar ekkert og ef þú vilt margfalda áhrifin veldu þá umhverfi sem veitir þér endurheimt. Öðrum hentar betur að fara í rækt, synda eða hjóla svo eitthvað sé nefnt. Ef þú kemst ekki út að hreyfa þig þá er hægt að hækka í tónlistinni og dansa heima í stofu eins og enginn sé að horfa.

Skráðu hjá þér hreyfingu dagsins í eina viku. Hvað gerðir þú og hversu lengi? Hvernig leið þér áður en þú fórst og hreyfðir þig, á meðan og eftir hreyfinguna? Eftir vikuna hefur þú ekki einungis aukið andlega og líkamlega vellíðan heldur mögulega fengið innsýn í hvaða hreyfing hentar þér best sem er svo hvati til að halda áfram.

Gangi þér vel og umfram allt, mundu að njóta ferðalagsins.


Sylvía Guðmundsdóttir er ACC markþjálfi, eigandi Styrkleika og stefnu og formaður félags um jákvæða sálfræði.


Heimildir

Fredrickson, B. L. (2001). The role of positive emotions in positive psychology: The broaden-and-build theory of positive emotions. American psychologist, 56(3), 218.

Hefferon, K. og Boniwell, I. (2011). Positive Psychology: Theory, Research and Applications. McGraw-Hill Education (UK).

Rashid, T. og Anjum, A. (2005) 340 Ways to Use VIA Character Strengths. Óútgefið. University of Pennsylvania.

Seligman, M.E.P., Rashid, T., og Parks, A.C. (2006). Positive psychotherapy. American Psychologist, 61, 774–788

17 views0 comments

Recent Posts

See All

Jákvæð sálfræði og inngrip

Hvað er jákvæð sálfræði? Um aldarmótin 2000 jókst áhugi á að rannsaka nánar þætti sem skapa vellíðan og jákvæðan vöxt (blómstrun) hjá einstaklingum, samfélaginu og stofnunum. Markmiðið var að jafna h

Markþjálfun – Hvað er það?

Ég hef svo oft fengið spurninguna, hvað er markþjálfun? Og hver er munurinn á markþjálfa og markþjálfa? Markþjálfi er ekki lögverndað starfsheiti á Íslandi og því geta allir sem það vilja tekið sér þa

Áhrif umhverfis á líðan og endurheimt

Árið 2013 skrifaði ég Bs sálfræðiritgerð um Umhverfissálfræði þar sem ég kannaði áhrif trjáa og grass á almenningssvæðum á líkur þess að upplifa sálfræðilega endurheimt. Niðurstöður bentu til þess að

Comentarios


bottom of page