Árið 2013 skrifaði ég Bs sálfræðiritgerð um Umhverfissálfræði þar sem ég kannaði áhrif trjáa og grass á almenningssvæðum á líkur þess að upplifa sálfræðilega endurheimt. Niðurstöður bentu til þess að aukið hlutfall trjáa og grass sýndu sterka jákvæða fylgni við líkur þess að upplifa endurheimt og samræmast þær niðurstöður fjölda annarra rannsókna um svipað efni.
En hvað er sálfræðileg endurheimt? Í daglegu tali myndum við líklega tala um að hlaða batteríin eftir erfiðan dag. Ein fræðileg skilgreining er „endurnýjun líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar getu, sem minnkað hefur vegna fyrirhafnar fólks við að mæta hinum margvíslegu kröfum hversdagsins“ (Hartig, 2004. Þýðing Páll Jakob Líndal, 2012).
Margar rannsóknir um sálfræðilega endurheimt byggja á annarri kenningu um endurheimta athygli (ART) þeirra Kaplan og Kaplan. Þar er gert ráð fyrir tveimur meginflokkum. Annars vegar ósjálfráðri athygli sem við notum til að fylgjast með skemmtilegum og spennandi hlutum og tekur ekki mikla orku og hins vegar beinda athygli sem krefst meiri fyrirhafnar. Beindu athyglina notum við til að einbeita okkur að ákveðnum verkefnum, athöfnum eða hlutum. Þegar við þurfum að nota beindu athyglina lengi dregur úr virkni hennar og við upplifum athyglisþreytu. Hún lýsir sér m.a. í skorti á einbeitingu, erfiðleikum við að leysa verkefni og vöntun á líkamlegri getu til að komast í gegnum daginn. Hún getur einnig dregið úr getu til að veita ástvinum félagslegan stuðning.
Að finna fyrir athyglisþreytu er fullkomlega eðlilegt ástand sem flest fólk upplifir reglulega. Það er ekki fyrr en tækifærin til endurheimtar verða of fá eða óregluleg yfir lengri tíma að við förum að sjá neikvæðar afleiðingar hennar á heilsu og velferð fólks.
Umhverfi sem hentar best til endurheimtar þarf að búa yfir fjórum þáttum samkvæmt ART kenningunni. Fyrsti þátturinn er fjarlægð frá daglegu amstri, helst bæði líkamleg og andleg. Annar þátturinn er hrifning sem tekur til þess að í umhverfinu séu áreiti sem vekja upp áhuga, fanga athyglina áreynslulaust og hvetja til nánari skoðunar. Þriðji þátturinn er umfang sem í stuttu máli felur í sér að umhverfið nái að viðhalda hrifningunni og svo fjórði þátturinn, samþýðanleiki sem vísar til þess að umhverfið uppfylli þarfir og tækifæri til athafna. Fræðilega gegna þessir fjórir eiginleikar lykilhlutverki í samspili fólks og umhverfis og eru forsenda þess að umhverfi geti talist endurheimtandi.
Burtséð frá öllum rannsóknum þá finn ég það best á eigin líðan hvað náttúran hefur góð áhrif á andlegu heilsuna mína. Sem barn elskaði ég að liggja úti í vondu veðri og hlusta á vindinn, horfa á grasið og trén sveigjast og skýin svífa yfir í hinum ýmsu myndum. Sú þörf hefur síður en svo horfið með árunum. Þó svo verkefni dagsins, vinna og heimili þurfi oftast að hafa forgang þá gef ég mér tíma til að fara út í náttúruna. Stundum til að auka þol og styrk en önnur skipti bara til að vera. Ég á það ennþá til að leggjast í grasið og horfa á skýin og finna þreytuna líða úr mér. Krefjandi hugsanir víkja fyrir aðdáun á umhverfinu og ég finn aftur litlu mig, þessa sem hafði engar áhyggjur og lék sér daginn út og inn. Eftir slíkar stundir hef ég endurheimt sálfræðilegu orkuna mína og er tilbúin í næstu verkefni.
Bs ritgerðina mína ásamt heimildum sem ég nota í þessari grein má finna hér http://hdl.handle.net/1946/15243
Comments