Eftirfarandi grein er unnin upp úr meistararitgerðinni minni í mannauðsstjórnun. Þó ritgerðin hafi verið skrifuð út frá breytingastjórnun fyrirtækja þá dregur það ekki úr þeirri staðreynd að í kjarnann snýst hún um fólk. Því breytingar snúast jú um fólk.
Breyting (e. change) og umskipti (e. transition) eru ekki sami hluturinn (Bridges, 1986, 2003). Það fyrra er bundið ákveðnum aðstæðum eða aðgerðum, hið seinna er sálfræðilegt hugtak og snýr að þriggja þrepa ferli sem fólk þarf að fara í gegnum svo breytingarnar nái í gegn að ganga. Fyrsta þrep er að sleppa takinu á gömlum hefðum og aðferðum. Það felur í sér ákveðinn missi, hvort sem breytingarnar eru æskilegar í augum viðkomandi eða ekki. Mikilvægt er að aðstoða fólk í gegnum þennan missi eins og hægt er svo það eigi auðveldara með að sleppa takinu. Í öðru þrepi fer fram vinna við að innleiða nýjar aðferðir sem er kjarninn í umbreytingaferlinu. Hér ríkir ákveðin óvissa þar sem hvorki gömlu né nýju aðferðirnar eru ríkjandi. Óvissan getur leitt til þess að starfsfólk segir upp störfum en þó þarf að gæta þess að fara ekki of snemma úr þessu ástandi. Það er mikilvægt að nýta tímann vel enda gefast hér tækifæri til að uppgötva nýjar leiðir og sá fræjum framtíðarinnar. Þriðja þrepið, endastöðin, markar svo upphaf nýrra tíma þar sem farið er að vinna samkvæmt nýjum aðferðum. Breyting sem felur ekki í sér umskipti á hegðun starfsmanna er „bara endurröðun stóla“ (Bridges, 2003. Bls. 3). Það er, ákveðin breyting hefur átt sér stað en ekki er víst að sú breyting hafi áhrif á hegðun einstaklinga. Og ef hegðunin breytist ekki eru litlar líkur á því að breytingarnar séu komnar til að vera.
Breytingum fylgir óvissa og ekki ólíklegt að spurningar um persónulega hagsmuni vakni. Ein skilgreining óvissu sem Milliken setti fram 1987 er „vangeta einstaklings til að spá nákvæmlega fyrir um eitthvað“. Við erum alltaf að upplifa breytingar í lífinu. Sumar eru okkar eigin ákvörðun en aðrar fáum við lítið um að segja. Það er því ótvíræður styrkur að skilja eigin líðan og ná þannig tökum á viðbrögðum okkar og hegðun. Það má meðal annars gera með þekkingu á eigin persónustyrkleikum og því hvernig við getum notað þessa styrkleika til að takast á við krefjandi verkefni. Rannsóknir hafa sýnt að áhrif persónuleika og félagslegra þátta hefur áhrif á hversu vel einstaklingar ná að takast á við breytingar. Það þarf kannski ekki að undra að þeir sem voru opnir fyrir nýrri reynslu, höfðu hátt þol fyrir óvissu og bjuggu við góðan félagslegan stuðning áttu auðveldara með að takast á við breytingarnar (Otto og Dalbert, 2012).
Heimildir
Bridges, W. (1986). Managing organizational transitions. Organizational dynamics, 15(1), 24-33.
Bridges, W. (2003). Managing transitions: Making the most of change. Da Capo press
Otto, K. og Dalbert, C. (2012). Individual differences in job-related relocation readiness: The impact of personality disposition and social orientations. Career development international, 17 (2), 168-186
Comments